Stofnfundur Samráðsvettvangs trúfélaga
Stofnfundur Samráðsvettvangs trúfélaga var haldinn föstudaginn 24. nóvember kl. 15.00 í Tjarnarsal Ráðhússins. Á stofnfundinum fluttu ávörp forseti Íslands, formaður mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar og framkvæmdastjóri Alþjóðahúss. Guðrún Dögg Guðmundsdóttir,framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands stýrði fundinum. Bjargræðistríóið flutti sálm.
Markmið samráðsvettvangsins er að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks af ólíkum lífsviðhorfum, trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Samráðsvettvangurinn veitir leiðtogum og fulltrúum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga um trúarleg efni tækifæri til að kynnast, stuðlar að málefnalegum samskiptum milli þeirra, liðkar fyrir miðlun upplýsinga og hjálpar þeim að ræða sameiginleg hagsmunamál á borð við aðgengi að trúarlegri þjónustu á opinberum vettvangi og taka á vandamálum sem upp kunna að koma, svo sem í tengslum við einelti, óeirðir, styrjaldir, náttúruhamfarir eða slys.
Öll trúfélög sem fengið hafa skráningu hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og þannig myndað tengsl við ríkisvaldið hafa rétt á aðild að samráðsvettvanginum. Óskráð trúfélög og lífsskoðunarfélög sem skírskota til trúar eða fullyrða um trúarleg efni án þess að kenna sig við trú geta sótt um aðild að samráðsvettvanginum en hún er komin undir samþykki fulltrúa allra sem þegar hafa öðlast aðild. Starfrækja má samráðsvettvanginn í samstarfi við óháð félagasamtök, nefndir og stofnanir.
Stofnaðilar að Samráðsvettvangi trúfélaga eru þrettán trúfélög en þau eru eftirtalin:
* Ásatrúarfélagið * Baháísamfélagið * Búddistafélag Íslands * Félag Múslima á Íslandi * FFWU Heimsfriðarsamband fjölskyldna * Fríkirkjan í Reykjavík * Fríkirkjan Vegurinn * Kaþólska kirkjan * Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu * Kirkja sjöunda dags Aðventista á Íslandi * Krossinn * Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík * Þjóðkirkjan
From - http://www.bahai.is/frettir/frett_nanar.php?id=131&tilbaka=yfirlit