Taílenskt búddahof rísi í Hádegismóum
Búddistafélag Íslands vill fá lóð undir taílenskt búddahof í Hádegismóum við Rauðavatn. Páll Júlíusson sem rekur málið fyrir búddista segir í bréfi sem hann sendi í fyrra til Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, þáverandi borgarstjóra, að frumkvæði og fjármögnun búddamusteris á Íslandi væri í umsjá auðkýfingsins Dr. Prasert Prasathong Osoth. Sá eigi meðal annars Bangkok Airways og starfi að málinu fyrir hönd Galayani Vadhana prinsessu sem sé systir konungsins í Taílandi.
Páll segir að hann hafi verið viðstaddur þrjár konuglegar móttökur sem og móttökur hjá æðstu búddamunkum Taílands. Þar hafi komið fram mikil hrifning á því að reisa búddamusteri á Íslandi.
„Í umræðum mínum við þess æðstu menn búddista í heiminum kom greinilega fram að mikið yrði ferðast til Íslands svo fólk gæti sagt að það hefði komið í nyrsta búddahof í heiminum," útskýrir Páll í bréfi til borgarstjóra og minnir á að á undanförnum áratug hafi fjöldi Taílendinga, Víetnama, Kínverja og fólks frá öðrum löndum búddisma margfaldast á Íslandi.
Þá kemur fram í bréfi Páls að hofið í Hádegismóum verði nefnt í höfuðið á Galayani prinsessu. „Því fylgir að sjálfsögðu ýmis heiður og gjafir frá konungsfjölskyldunni þegar musterið verður tilbúið," skrifar Páll og leggur áherslu á að tækifæri felist í samstarfi við auðkýfinginn Dr. Prasert.
„Hann er tilbúinn í viðræður um ýmsa samvinnu í heilbrigðismálum. Hann er nýbúinn að skrifa undir samning við Svíakonung og heilbrigðiskerfið þar varðandi hitabeltissjúkdóma. Töluvert veit hann um byggingu flugvalla, ef við erum að fara að flytja Reykjavíkurflugvöll," bendir Páll á.
Forsvarsmaður búddista ítrekar að auk Íslands hafi komið til álita að reisa hofið í Danmörku eða Sviss. Heiðurinn hafi fallið Íslandi í skaut. „Svo ég held að við verðum að koma til móts og sýna þeim þá virðingu að finna góða staðsetningu fyrir það," segir í bréfi Páls.
Hofið verður byggt í hefðbundnum taílenskum stíl og mun Vífill Magnússon arkitekt halda utan um þann hluta málsins er snýr að skipulagsyfirvöldum í Reykjavík. Vífill segir í samtali við Fréttablaðið að til séu frumuppdrættir að hofinu en að ekki sé tímabært að birta þá opinberlega þar sem málið sé á viðkvæmu vinnslustigi.
Tillögu um að veita búddistum vilyrði fyrir lóðinni var frestað í borgarráði á fimmtudag. gar@frettabladid.is
ที่มา - Fréttablaðið, 01. jún. 2008 05:00 และ www.visir.is